2.2.2025 | 17:20
Steinblokkir og stóreflis bjarg
Michael Heizer (f.1944) er bandarískur landlistamaður sem sérhæfir sig í umfangsmiklum og staðbundnum skúlptúrum. Hann vinnur að miklu leyti utan marka hins hefðbundna sýningarýmis. Michael er þekktur fyrir skúlptúra sína sem sumir hverjir líkast umhverfismannvirkjum unnin með stórvirkum vinnuvélum. Eitt af verkum hans vakti athygli undirritaðs fyrir nokkru en það er bjargskúlptúrinn Levitated Mass frá árinu 2012 (e.Svífandi Massi).
Ástæðan fyrir því var ekki fagurfræði listaverksins heldur umfang þess og þyngd. Það var ekkert áhlaupaverk að koma listaverkinu fyrir en það er rúmlega sex metra hátt og 340 tonn að þyngd. Flytja þurfti verkið 170 km leið frá grjótnámu í Jurupa dal í Riverside sýslu alla leiðina til County Museum of Art í Los Angeles-borg. Til þess þurfti 206 hjóla sérsmíðaðan trukk sem lullaði á 15 km hraða að nóttu til í gegnum 4 sýslur og 22 borgir. Flutningurinn tók alls 12 daga en allar nauðsynlegar leyfisveitingar og undirbúningur tók öllu lengri tíma eða hálft ár.
Í grunni og nágrenni Baalbek musterisins mikla í Beeka-dal, Líbanon má finna fjölmargar gríðarstórar steinblokkir. Sumar þeirra eru allt að 200 400 tonn að þyngd. Þrjár stærstu steinblokkirnar eru þó öllu þyngri: Steinn hinnar þunguðu konu vegur t.a.m. um 1,000 tonn; Steinn Suðursins vegur 1,242 tonn og Týndi Steinninn vegur heil 1,650 tonn. Já, eitt þúsund sexhundruð og fimmtíu tonn! Það er óþarfi að taka það fram að enginn heilvita nútíma snjalltæknimaður er líklegur til að bifa slíkum ferlíkjum í dag. Enda engin þörf á svo sem.
Það er ekki laust við að hugurinn hverfi á stundum til goðsagnarinnar um Sísýfos hinn gríska. Hann var dæmdur til að velta grjóti upp fjallshlíð, sem óhjákvæmilega hrapar rétt áður en hann nær að velta því upp á fjallstoppinn, Sísýfos þarf að byrja að nýju við fjallsrætur á tilgangslausu verki sínu til ævinlegrar tíðar.
Hann ku enn vera að rétt eins og svo mörg okkar.
Um bloggið
Lárus Sigurðsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 58
- Sl. sólarhring: 62
- Sl. viku: 189
- Frá upphafi: 196
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 102
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 24
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning