9.2.2025 | 14:49
Marion Stokes
Marion Stokes
Það hríslast um mann notaleg tilfinning þegar maður hugsar um allar vídeóleigurnar sem maður spólaði á milli í gamla daga. Í vesturbæ Kópavogs einum voru 5-6 leigur þar af 2 í Hamraborginni. Það þurfti töluverða fyrirhöfn og áræðni að koma sér á leigurnar á tveimur jafnfljótum, leigja spólu eða tvær, hraða sér heim, horfa á og hverfa uppnuminn inn í annarskonar heim, spóla til baka og koma sér aftur á leigurnar til að sækja sér meira heilafóður. Hver man ekki eftir költ ræmum eins og Attack of the Killer Tomatos og The Incredible Melting? Það fór dágóður tími í þetta ferli, kannski um 1.000 klst á ári eða svo. En svo liðu árin, önnur tækni tók við og allt atferli og aðgengi að heilafóðri breyttist.
En allar þessar minningar um költmyndir og sýsl með vídeóspólur blikna í samanburði við konu eina að nafni Marion Marguerite Butler (1929-2012). Hún bjó í Germantown, Philadelphia og starfaði lengstum sem bóka- og skjalavörður. Marion var með söfnunaráráttu á háu stig en eftir hana liggja 71.716 VHS- og Betamaxspólur sem geyma um 400.000 klst. af sjónvarpsefni sem hún tók samviskusamlega upp á 8 VCR-tæki heima hjá sér. Á þessum spólum má finna fréttaefni frá CNN, Fox og MSNBC sem og spjall- og skemmtiþætti eins og The Cosby Show, The Oprah Winfrey Show, Nightline og Star Trek. Hún safnaði einnig dúkkum, dúkkuhúsum, dagblöðum, tímaritum, bæklingum. Marion hélt dagbók flesta daga og átti um 40.000 bækur og 192 Macintosh tölvur. Til þess að hýsa allt þetta dót þurfti hún 9 leiguíbúðir og 3 geymslurými. Marion fjármagnaði þessa söfnunaráráttu sína m.a. með hlutabréfakaupum í Apple-tölvufyrirtækinu. Hún lést árið 2012, 83 ára að aldri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 9. febrúar 2025
Um bloggið
Lárus Sigurðsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 120
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 74
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar