19.2.2025 | 15:28
Að póstleggja bréf og barn
Samstarfspósthúsinu í Hveragerði var skellt í lás 31. ágúst 2023.
Maður hefur póstlagt hitt og þetta í gegnum tíðina og það var oft hátíðleg stund þegar maður póstlagði handskrifuð bréf vitandi það að innan tíðar myndi tiltekin manneskja handleika þau, lesa og jafnvel skynja eitthvað óvenjulegt í gegnum rithöndina og málfarið.
Nú er öldin önnur, pósthús og handskrifuð bréf eru orðin býsna sjaldgæf og ákveðinn skapandi tjáningarmáti í leiðinni.
En fyrir hundrað árum þótti eðlilegt að póstleggja pakka, bréf, dýr, líkkistur, skotvopn og börn.
Fyrsta skráða tilvikið þar sem barn var sent með pakkapósti var í janúar 1913.
Herra og frú Jesse Beagle frá Glen Este, Ohio sendu þá son sinn, James, í pósti til ömmu sinnar. James komst klakklaust á áfangastað.
Frímerkið kostaði heil 13 sent og vegalengdin var nokkrir kílómetrar.
Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá tvo reffilega póstburðarmenn með barnapakkapóst.
Bloggar | Breytt 20.2.2025 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2025 | 19:41
Sjálfuprik og sveitarómans
Við sjáum hér ábúðarfullan herramann munda sjálfuprik í dáfallegu landslagi um aldamótin 1900.
Í forgrunni má sjá tvær hefðardömur sem leiðist kannski þófið enda tók þessi sjálfa sjálfsagt óratíma í framkvæmd.
Kunnáttumenn segja að nútímamaðurinn um gervallan heim taki um 60.000 ljósmyndir á hverri sekúndu.
Það gera um 1.810.000.000.000.000.000 á ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2025 | 19:23
Rafskútuparið
Hér í forgrunni má sjá glaðhlakkalegt prúðbúið par á rafskútu.
Þetta er 102 ára gömul ljósmynd vel að merkja.
Síðan hefur auðvitað mikið vatn runnið til sjávar í menningu vorri.
Líkamsstaða náungans í bakgrunninum vinstra megin segir þó meira en mörg orð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2025 | 19:03
Að brýna kuta liggjandi á maganum
Snemma á síðustu öld í Thiers-borg, Frakklandi, brýndu menn og konur sveðjur, kuta, sverð og hnífa, liggjandi á maganum helst með hund flatmagandi á fótleggjum sínum.
Menn og konur sinntu ýmis konar landbúnaðarstörfum á sumrin svona eins og gengur og gerist og smíðuðu og brýndu hnífa á veturna við erfiðar aðstæður svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
Kalt var innandyra og hverfisteinninn gat verið víðsjárverður og vinnan sjálf var mjög líkamlega krefjandi og endurtekningarsöm. Því var brugðið á það ráð að vinna liggjandi á maganum til að hlífa bakinu og nota hunda til að halda á sér hita eftir fremsta megni.
Þessar gömlu ljósmyndir opna glugga inn í fjarlægan heim og einkennilegar aðstæður.
Það hvarflar þó ekki að manni í febrúarmánuði á því herrans ári 2025 að liggja á maganum í vinnunni og brýna sigður eða eggjárn í fimbulkulda með hund ofan á sér.
Og þó...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2025 | 14:49
Marion Stokes
Marion Stokes
Það hríslast um mann notaleg tilfinning þegar maður hugsar um allar vídeóleigurnar sem maður spólaði á milli í gamla daga. Í vesturbæ Kópavogs einum voru 5-6 leigur þar af 2 í Hamraborginni. Það þurfti töluverða fyrirhöfn og áræðni að koma sér á leigurnar á tveimur jafnfljótum, leigja spólu eða tvær, hraða sér heim, horfa á og hverfa uppnuminn inn í annarskonar heim, spóla til baka og koma sér aftur á leigurnar til að sækja sér meira heilafóður. Hver man ekki eftir költ ræmum eins og Attack of the Killer Tomatos og The Incredible Melting? Það fór dágóður tími í þetta ferli, kannski um 1.000 klst á ári eða svo. En svo liðu árin, önnur tækni tók við og allt atferli og aðgengi að heilafóðri breyttist.
En allar þessar minningar um költmyndir og sýsl með vídeóspólur blikna í samanburði við konu eina að nafni Marion Marguerite Butler (1929-2012). Hún bjó í Germantown, Philadelphia og starfaði lengstum sem bóka- og skjalavörður. Marion var með söfnunaráráttu á háu stig en eftir hana liggja 71.716 VHS- og Betamaxspólur sem geyma um 400.000 klst. af sjónvarpsefni sem hún tók samviskusamlega upp á 8 VCR-tæki heima hjá sér. Á þessum spólum má finna fréttaefni frá CNN, Fox og MSNBC sem og spjall- og skemmtiþætti eins og The Cosby Show, The Oprah Winfrey Show, Nightline og Star Trek. Hún safnaði einnig dúkkum, dúkkuhúsum, dagblöðum, tímaritum, bæklingum. Marion hélt dagbók flesta daga og átti um 40.000 bækur og 192 Macintosh tölvur. Til þess að hýsa allt þetta dót þurfti hún 9 leiguíbúðir og 3 geymslurými. Marion fjármagnaði þessa söfnunaráráttu sína m.a. með hlutabréfakaupum í Apple-tölvufyrirtækinu. Hún lést árið 2012, 83 ára að aldri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2025 | 17:20
Steinblokkir og stóreflis bjarg
Michael Heizer (f.1944) er bandarískur landlistamaður sem sérhæfir sig í umfangsmiklum og staðbundnum skúlptúrum. Hann vinnur að miklu leyti utan marka hins hefðbundna sýningarýmis. Michael er þekktur fyrir skúlptúra sína sem sumir hverjir líkast umhverfismannvirkjum unnin með stórvirkum vinnuvélum. Eitt af verkum hans vakti athygli undirritaðs fyrir nokkru en það er bjargskúlptúrinn Levitated Mass frá árinu 2012 (e.Svífandi Massi).
Ástæðan fyrir því var ekki fagurfræði listaverksins heldur umfang þess og þyngd. Það var ekkert áhlaupaverk að koma listaverkinu fyrir en það er rúmlega sex metra hátt og 340 tonn að þyngd. Flytja þurfti verkið 170 km leið frá grjótnámu í Jurupa dal í Riverside sýslu alla leiðina til County Museum of Art í Los Angeles-borg. Til þess þurfti 206 hjóla sérsmíðaðan trukk sem lullaði á 15 km hraða að nóttu til í gegnum 4 sýslur og 22 borgir. Flutningurinn tók alls 12 daga en allar nauðsynlegar leyfisveitingar og undirbúningur tók öllu lengri tíma eða hálft ár.
Í grunni og nágrenni Baalbek musterisins mikla í Beeka-dal, Líbanon má finna fjölmargar gríðarstórar steinblokkir. Sumar þeirra eru allt að 200 400 tonn að þyngd. Þrjár stærstu steinblokkirnar eru þó öllu þyngri: Steinn hinnar þunguðu konu vegur t.a.m. um 1,000 tonn; Steinn Suðursins vegur 1,242 tonn og Týndi Steinninn vegur heil 1,650 tonn. Já, eitt þúsund sexhundruð og fimmtíu tonn! Það er óþarfi að taka það fram að enginn heilvita nútíma snjalltæknimaður er líklegur til að bifa slíkum ferlíkjum í dag. Enda engin þörf á svo sem.
Það er ekki laust við að hugurinn hverfi á stundum til goðsagnarinnar um Sísýfos hinn gríska. Hann var dæmdur til að velta grjóti upp fjallshlíð, sem óhjákvæmilega hrapar rétt áður en hann nær að velta því upp á fjallstoppinn, Sísýfos þarf að byrja að nýju við fjallsrætur á tilgangslausu verki sínu til ævinlegrar tíðar.
Hann ku enn vera að rétt eins og svo mörg okkar.
Bloggar | Breytt 9.2.2025 kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2025 | 11:06
Dómkirkjukafarinn
Dómkirkjukafarinn
Undirritaður hefur löngum dáðst að mikilfenglegum byggingum og listrænu handverki. Það er enginn hörgull á musterum, píramídum og steinahringjum á jörðinni sem hafa valdið manni miklum heilabrotum í gegnum tíðina. Það er eitt að hanna og byggja mannvirki og annað að viðhalda þeim. Sú tækni sem forfeður okkar og formæður höfðu yfir að ráða er ekki endilega sú tækni sem notuð er í dag. Það sést greinilega á fornum byggingum þar sem listrænt handverk er í hávegum haft.
Á Suður-Englandi má finna eina af stærstu dómkirkjum N-Evrópu, Dómkirkju hinnar heilögu þrenningar í Winchester, Hampshire sýslu. Dómkirkjan var reist á árunum 1079-1532 með tilheyrandi breytingum og hléum og stendur enn. Það voru Normandingar sem áttu heiðurinn að hönnun og smíði þessarar dómkirkju. Hún var þó ekki reist á helgum heiðnum reit eins og svo margar aðrar kirkjubyggingar heldur í mólendi sem er auðvitað ekki ákjósanlegur staður fyrir mannvirki af þessari stærðargráðu og þyngd.
Fimm hundruð árum eftir að smíði dómkirkjunnar lauk tók austari hlið hennar að síga svo mjög að kirkjunnar mönnum stóð ekki á sama. Vatn hafði komist í tréflekann sem dómkirkjan hvílir á og hann var farinn að rotna.
Í kjölfarið voru alls færustu sérfræðingar kvaddir til og björgunarstörf hafin í skyndi.
Þau höfðu þó þveröfug áhrif því um leið og þessir ágætu sérfræðingar grófu frá veggjum allan leir og mó sem höfðu einangrað kirkjuna í fimm hundruð ár flæddi vatn úr Itchen-á inn í grunn kirkjunnar sem aldrei fyrr.
Nú þóttu góð ráð fokdýr.
Kemur þá til sögunnar William nokkur Walker (1869-1918) sem var mikilsvirtur kafari frá hinum konunglega breska sjóher og heljarmenni mikið. Honum var falið það starf að lappa upp á grunn kirkjunnar og það gerði hann einn síns liðs við afar krefjandi aðstæður svo ekki sé meira sagt.
William þurfti að athafna sig í svarta myrkri á 6-8 metra dýpi í hálfgerðu skólpvatni því vatnið í kirkjugrunninum hafði síast í gegnum nærliggjandi kirkjugarð. Hann vann alla virka daga á 6-7 tíma vöktum í tæp 6 ár. Um helgar hjólaði hann svo heim til fjölskyldunnar sinnar í London, um 100 km hvora leið sem er afrek út af fyrir sig.
Þegar björgunarstarfinu lauk með miklum ágætum hafði William handlangað og lagt 25.800 sementspoka, 114.900 steypublokkir og 900.000 múrsteina.
William lést árið 1918 úr spönsku veikinni.
https://www.youtube.com/watch?v=xZnMDLP-mww&t=447s
Bloggar | Breytt 9.2.2025 kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Lárus Sigurðsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar